Húsnæði / Íþyngjandi húsnæðiskostnaður


Stutt lýsing

Íþyngjandi húsnæðiskostnaður er skilgreindur sem húsnæðiskostnaður sem nemur a.m.k. 40% af ráðstöfunartekjum heimilis.


Nánari skýring

Íþyngjandi húsnæðiskostnaður byggir á útreikningi á byrði húsnæðiskostnaðar. Húsnæðisbyrði er reiknuð sem hlutfall ráðstöfunartekna sem er varið í húsnæðiskostnað. Fyrir neðan er hverjum lið fyrir sig lýst nánar.

Húsnæðiskostnaður

Eftirfarandi liðir teljast til húsnæðiskostnaðar: húsaleiga, vaxtakostnaður og verðbætur vegna lána, viðhald, viðgerðir, bruna-, og fasteignatrygging, rafmagn, hiti og fasteignagjöld. Húsaleigubætur og vaxtabætur eru dregnar frá húsnæðiskostnaði hjá þeim sem fá slíkar bætur greiddar.

Ráðstöfunartekjur heimilis

Byggir á ráðstöfunartekjum á neyslueiningu sem skilgreinist sem ráðstöfunartekjur eftir að tillit hefur verið tekið til heimilisstærðar og þeirrar hagkvæmni í rekstri heimilisins sem fæst við það að fleiri en einn búa undir sama þaki. Einnig er gert ráð fyrir því að útgjöld vegna barna séu lægri en útgjöld vegna fullorðinna.

Ráðstöfunartekjur á neyslueiningu eru reiknaðar í þremur skrefum:

  1. Fyrst eru allar tekjur heimilisins teknar saman. Til tekna teljast meðal annars atvinnutekjur, tekjur af fjárfestingum og félagslegum bótum, auk allra annarra heimilistekna eftir skatta og greiðslur til félagslegra kerfa. Miðað er við heildartekjur á 12 mánaða tímabili.

  2. Næst er tekið tillit til rekstrarhagkvæmni heimilisins. Til að taka mið af þessu er notaður hinn svokallaði Breytti OECD kvarði” (Modified OECD equivalence scale) þar sem öllum einstaklingum er gefin tiltekin vog.
    • Fyrsti einstaklingur á heimilinu fær vogina 1,0.
    • Aðrir einstaklingar 14 ára og eldri fá vogina 0,5
    • Einstaklingar yngri en 14 ára fá vogina 0,3.
  3. Að lokum er neyslueiningu heimilisins deilt með ráðstöfunartekjum heimilisins.

Þannig má segja að hjón með tvö börn yngri en 14 ára, sem hafa 500 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur alls á mánuði, hafi (500 / (1 + 0,5 + 0,3 + 0,3)) = 500 / 2,1 = 238 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur á neyslueiningu.

Tekjubil

Hér er tekjudreifingunni skipt í 5 jafn stóra hluta eftir ráðstöðunartekjum á neyslueiningu, svokölluð fimmtungabil (e. income quintiles). Fimmtungabilin eru skilgreind út frá einstaklingum og greiningin hér miðar einnig við einstaklinga. Hver einstaklingur telst á því fimmtungabili sem heimili þeirra eru á, en samkvæmt skilgreiningu á ráðstöfunartekjum á neyslueiningu eru allir heimilismenn á sama bili.

Viðmiðunarár

Í samræmi við vinnubrögð Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins miðast ártal í myndum og töflum við könnunarár, það ár sem lífskjararannsóknin er framkvæmd. Upplýsingar um tekjur eru úr skattskrá ársins á undan.

Um tölurnar

Samhliða birtingu á niðurstöðum fyrir árin 2015-2018 hafa eldri niðurstöður verið endurskoðar með tillit til kostnaðar vegna rafmagns og hita. Áhrifa leiðréttingarinnar gætir fyrst og fremst hjá leigjendum. Tölurnar frá 2018 eru bráðabirgðatölur.

Niðurstöðurnar byggja á lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Grunneining rannsóknarinnar er heimili fremur en einstaklingar. Úrtak rannsóknarinnar er fengið á þann hátt að einstaklingar eru valdir með slembni úr þjóðskrá og þar með heimilið sem þeir tilheyra. Sá einstaklingur sem er valinn í úrtakið kallast valinn svarandi og veitir hann allar upplýsingar um aðstæður heimilis, sínar eigin og allra annarra heimilismeðlima. Hér er greiningin miðuð við einstaklinga, og gert er ráð fyrir því að aðstæður heimilisins eigi við um alla einstaklinga á heimilinu.


Eining

Hlutfall í %.


Nánari upplýsingar

Hér eru aðeins birtar lykiltölur um íþyngjandi húsnæðiskostnað.

Nánari upplýsingar eru í eftirfarandi töflum undir “Húsnæðismál - húsnæðiskostnaður” á aðalvef Hagstofu Íslands. Unnið er að uppfærslu á talnaefni.

Einnig er hægt að skoða íþyngjandi húsnæðiskostnað eftir bakgrunni í eftirfarandi töflu

Lýsigögn með nánari upplýsingum má finna hér.