Menningarvísar eru hagrænir mælikvarðar um menningu og skapandi greinar í íslensku atvinnulífi og hagkerfi.

Eftirtaldir menningarvísar hafa verið birtir: fjöldi starfandi, launasumma, fjöldi rekstraraðila, rekstrartekjur og þjónustuviðskipti við útlönd. Verkefnið er í þróun.

Í menningarvísum eru talnagögn birt í myndriti og þau brotin niður á tíu menningargreinar. Stuðst er við hliðarflokkun Hagstofu Íslands á menningargreinunum en hliðarflokkunin byggir í grunninn á skilgreiningu Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, á atvinnugreinum menningar.

Menningargreinarnar tólf eru:
auglýsingar
bókmenntir
fjölmiðlar
hönnun og arkitektúr
kvikmyndir og sjónvarp
listnám
menningararfur
myndlist
prentun
sviðslistir
tónlist
tölvuleikir

Hver menningargrein samanstendur af ákveðnum ÍSAT 2008-atvinnugreinum en í þeim tilfellum þar sem ÍSAT 2008 atvinnugreinar falla ekki að öllu leyti undir ákveðna menningargrein eru hliðarflokkar notaðir.

Við hliðarflokkun var miðað við að rekstraraðili væri með annað hvort 3 mkr. í rekstrartekjur á ársgrundvelli á tímabilinu 2008-2021 eða með stöðugar rekstrartekjur yfir 1 mkr. á 3-5 ára tímabili. Aðal áherslan var þó á að ná að minnsta kosti 90% þekju í hverri ÍSAT atvinnugrein. Í þeim tilfellum þar sem upplýsingar um starfsemi rekstraraðila liggja ekki fyrir eru rekstraraðilar flokkaðir í þann hliðarflokk sem meirihluti rekstraraðila féll í. Þær menningargreinar eru stjörnumerktar. Sjá nánar í lýsigögnum.

Allar tölur eru til bráðabirgða. Fyrirhugað er að viðhalda hliðarflokkun menningargreina til frambúðar og auka framboð af mælingum sem birtar verða, flokkaðar eftir menningargreinum.