Félagslegir
mælikvarðar

Félagslegum mælikvörðum er skipt í ...

Félagsauður

Tengsl við annað fólk og þátttaka í samfélaginu hafa áhrif á virkni samfélagsins sem og heilsu og líðan einstaklinga og ýmis tækifæri þeirra í lífinu. Samfélög sem eru rík af félagsauð búa alla jafna við lægri afbrotatíðni og meiri seiglu gagnvart áföllum. Félagslegt net er hluti af öryggisneti einstaklinga þegar eitthvað bjátar á. Traust til stjórnmála og stofnana og þátttaka í kosningum eru mælingar á lögmæti stjórnkerfisins og þeirra sem fara með valdið.

Heilsa

Heilsa er á meðal þeirra þátta sem fólk metur mikilvægasta fyrir lífsgæði. Heilsa er mikilvæg í sjálfri sér en hefur einnig áhrif á aðra mikilvæga þætti eins og getu til að starfa á vinnumarkaði, afla tekna, afla sér menntunar og taka fullan þátt í samfélaginu að öðru leyti.

Jafnvægi vinnu og einkalífs

Jafnvægi milli vinnu og einkalífs er lykilþáttur í velsæld fólks og fjölskyldna. Of lítil vinna hefur bein áhrif á tekjur heimilisins og möguleika fólks á að njóta góðra lífskjara en of mikil vinna þrengir að tíma heimilisins og getur haft áhrif á heilsu og líðan og þannig dregið úr samveru og gæðastundum. Jafnvægið hefur líka áhrif á félagsauð í samfélaginu þar sem fólk með nægan frítíma er líklegra til að taka þátt í félagsstarfi og hitta vini og fjölskyldu.

Menntun

Menntun skiptir máli bæði fyrir samkeppnishæfi þjóða en einnig fyrir lífsgæði einstaklinga. Meiri menntun hefur áhrif á lífslíkur, heilsufar, tekjur og þátttöku í samfélaginu.

Öryggi

Öryggi almennings er einn af hornsteinum hins góða samfélags. Að verða fyrir afbrotum eða árásum getur haft slæmar afleiðingar fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu fólks. Öryggisleysi getur haft samskonar áhrif og ofbeldi og afbrot og getur dregið úr trausti og samheldni í samfélaginu.