Efnahagslegir mælikvarðar / Hagkerfið /

Kaupmáttur

Kaupmáttur ráðstöfunartekna

Stutt lýsing

Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann, hlutfallsleg ársbreyting.


Nánari skýring

Kaupmáttur ráðstöfunartekna mælir breytingu á ráðstöfunartekjum að teknu tilliti til verðbólgu og sýnir hversu mikið af vöru og þjónustu hægt er að kaupa fyrir laun. Jákvæður kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann gefur því til kynna að hagur landsmanna hafi batnað frá fyrra ári.

Ráðstöfunartekjur heimilanna má skilgreina sem samtölu launatekna, eignatekna, tilfærslutekna, reiknaðs rekstrarafgangs vegna eigin eignarhalds, þar með talið íbúðarhúsnæðis, en að frádregnum eigna- og tilfærsluútgjöldum.

Tölur yfir vaxtatekjur af bankainnistæðum einstaklinga eru ekki að fullu sambærilegar fyrir tímabilið 1994-1999 annars vegar og 2000-2012 hins vegar. Ástæða þess er sú að tölur fyrir árin 1994-1999 eru unnar beint úr skattframtölum einstaklinga en fyrir tekjuárið 2008 var í fyrsta sinn lögð sú skylda á fjármálastofnanir að veita skattyfirvöldum upplýsingar um innistæður og vaxtatekjur. Með hliðsjón af tölum fyrir árið 2008 hefur verið unnið nýtt mat á vaxtatekjum af bankainnistæðum út frá upplýsingum um innheimtan fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum yfir tímabilið 2000-2007.

Um tölurnar

Hagstofa Íslands birtir tekjuskiptingaruppgjör þar sem litið er á fimm megingeira hagkerfisins, þ.m.t. heimilin, og tekjur þeirra metnar. Tekjuskiptingaruppgjörið er mikilvægt tæki til þess að greina tekju- og útgjaldastreymi á milli efnahagsgeira innan hagkerfisins og samband innlendra efnahagsgeira við útlönd. Nota má uppgjörið við greiningar á framleiðslu, dreifingu tekna og tekjuflæði á milli geira.

Tekjuskiptingaruppgjör er ein af þremur aðferðum sem beitt er við gerð þjóðhagsreikninga. Hagstofa Íslands birtir opinberar tölur um þjóðhagsreikninga og eru þeir notaðir við hvers konar mat á hagþróun til skamms eða langs tíma.


Eining

Hlutfall í %.


Nánari upplýsingar

Hér eru einungis birtar lykilupplýsingar um kaupmátt ráðstöfunartekna.

Nánari upplýsingar eru í eftirfarandi töflum á aðalvef Hagstofu Íslands: “Tekjuskiptingaruppgjör”

Lýsigögn með nánari upplýsingum um tölfræðina má finna hér.