Umhverfislegir
mælikvarðar

Umhverfislegum mælikvörðum er skipt í ...

Land

Auðlindir þjóðarinnar eru meðal annars fólgnar í gróðri og jarðvegi og er mikilvægt að tryggja sjálfbærni við nýtingu lands. Þetta er gert með landgræðslu, gróðurvernd og endurheimt votlendis. Kolefnisbinding með landgræðslu er ein af mótvægisaðgerðum gegn hnattrænni hlýnun en slík kolefnisbinding er varanleg og því eftirsóknarverð. Þá þarf að vernda sérstæða náttúru sérstaklega.

Loftgæði og loftslag

Loftmengun getur spillt heilsu manna og því skiptir hreint og heilnæmt andrúmsloft almenning miklu. Losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum veldur loftslagsbreytingum og afleiðingar þessara breytinga á jörðina eru meðal annars þær að jöklar bráðna, yfirborð sjávar hækkar, vistkerfi raskast og öfgar í veðurfari aukast. Auk þess verða breytingar á lífsskilyrðum í sjó vegna breytinga á straumum, sýrustigi og seltu.

Orka

Orka er einn af grunnþáttum daglegs lífs og þykir svo sjálfsögð að við tökum helst ekki eftir henni nema þegar hennar nýtur ekki við. Náttúrulegar aðstæður eru mjög ólíkar milli landa og misjafnt hvaða orkulindir eru í boði og henta best á hverjum stað. Ísland hefur sérstöðu þegar kemur að orkumálum, því raforkuframleiðsla er hér nær eingöngu frá endurnýjanlegum orkugjöfum, fallvatni og jarðhita.

Úrgangur og endurvinnsla

Líta má á magn sorps og úrgangs sem mælikvarða á hversu vel þjóðir fara með auðlindir sem þær búa yfir. Skilvirk velmegunarsamfélög njóta hagsældar en mynda lítinn úrgang. Fyrsta áherslan í meðhöndlun úrgangs er að koma í veg fyrir myndun hans en síðan að tryggja að sá úrgangur sem til fellur sé endurunninn á viðeigandi hátt.