Um félagsvísa


Félagsmálaráðuneytið og Hagstofa Íslands hafa frá árinu 2012, að frumkvæði Velferðarvaktarinnar, safnað og birt árlega samfélagslegar mælingar undir yfirskriftinni félagsvísar. Félagsvísum er ætlað að mæla þætti sem eru í eðli sínu mikilvægir fyrir líf fólks og hafa bein áhrif á félagslega velferð þess.

Skilgreiningar

Félagsvísar einskorðast við útkomu félagslegrar velferðar (e. social well-being outcomes) en það eru þættir sem eru í eðli sínu mikilvægir fyrir líf fólks og hafa bein áhrif.

Félagslega velferð má setja fram sem stigveldi. Efst er félagsleg velferð sem er vítt hugtak og ekki hægt að mæla beint. Þar undir eru víddir félagslegrar velferðar. Heilsa og fjárhagur eru dæmi um víddir félagslegrar velferðar.

Þar fyrir neðan eru svo félagsvísarnir sjálfir. Hver félagsvísir tilheyrir ákveðinni vídd og er mæling á þeirri vídd. Mælingin gefur vísbendingu um stöðu félagslegrar velferðar innan hverrar víddar fyrir sig. Til dæmis er hlutfall fólks með heilsufarslegar takmarkanir mæling á víddinni heilsu og hlutfall fólks sem neitar sér um tannlæknaþjónustu vegna kostnaðar önnur mæling sömu víddar.

Neðst í stigveldinu eru samfélagshóparnir, en hægt er að sundurliða félagsvísa eftir kyni, aldri, fæðingarlandi og svo framvegis.

Víddir félagslegrar velferðar

Félagslegri velferð er skipt í 11 víddir í samræmi við flokkun ýmissa hagstofa og alþjóðastofnana :

Vísarnir

Félagsvísar gefa vísbendingu um félagslega velferð í samfélaginu, og þar sem margir þættir hafa áhrif á félagslega velferð, er fjöldi mælinga sem getur talist til félagsvísa. Það sem aðgreinir félagsvísa frá öðrum hagtölum er að samantekið gefa vísarnir heildarmynd af stöðu félagslegrar velferðar innan hverrar víddar. Til að slík yfirsýn sé möguleg er mikilvægt að vísarnir séu ekki of margir þar sem þeir gefa vísbendingu um ástand víddarinnar án þess að gefa tæmandi mynd af öllum þeim þáttum sem skipta máli innan hverrar víddar. Í dag eru félagsvísar 41 tölfræðileg mælistika þar sem eru 2-7 mælikvarðar fyrir hverja vídd.

Val á vísum byggir á gæðaramma félagsvísa sem taka mið af gæðaviðmiðum sem sett voru fram af Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat), skýrslu OECD um velferð og skýrslu um norræna velferðarvísa (NOVI). Hverjum vísi er ætlað að uppfylla eftirfarand skilyrði:

 1. Horft er til fólks þegar mælingar eru gerðar (einstaklinga og/eða heimila).
 2. Niðurstöður félagslegrar velferðar sem eru með beinum hætti þýðingamiklar fyrir fólk og eru í eðli sínu mikilvægar, en ekki áhrifavaldar eða afleiðingar þessara niðurstaðna. (Frekar að mæla hvort fólk hafi orðið fyrir glæpum, heldur en fjölda lögregluþjóna).
 3. Hefur möguleika á því að breytast og verða fyrir áhrifum breyttrar stefnu stjórnvalda.
 4. Almennt viðurkennd mæling sem er notuð víða.
 5. Sambærileg yfir tíma (endurtekin mæling).
 6. Að mælingin sé tímanleg.
 7. Að viðeigandi niðurbrot til að greina undirhópa og dreifingu sé mögulegt.
 8. Að mælingin sé nákvæm (precise).
 9. Réttmæt mæling á víddinni (conceptual validity). Val á félagsvísum miðar að því að ná sem best utan um víddina með eins fáum mælingum og hægt er. Þegar best lætur er hver vídd mæld með 3-5 mælingum. Mikilvægt er að velja félagsvísa sem eru ólíkir innbyrðis svo þeir geti gefið bæði hnitmiðaða og yfirgripsmikla mynd af víddinni, án þess að mæla aðra vídd.
 10. Að Hagstofa Íslands geti ábyrgst gæði mælingarinnar og auðgað með skráar- og mannfjöldaupplýsingum.
 11. Að félagsvísarnir uppfylli þarfir notenda.

Hafa ber í huga að í sumum tilvikum ná félagsvísarnir ekki að uppfylla öll skilyrði gæðamatsins. Til dæmis eru mælingar á félagslegum tengslum ekki hluti af árlegum mælingum Hagstofu Íslands og því ekki hægt að gefa þá félagsvísa jafn oft út og hina vísana.

Saga félagsvísa

Í mars 2009 samþykkti þáverandi ríkisstjórn Íslands tillögu Velferðarvaktarinnar um að setja af stað vinnu við að safna saman ýmis konar samfélagslegum mælingum undir yfirskriftinni félagsvísar. Markmið vísanna var að draga upp heildarmynd af ástandi þjóðarinnar þar sem velferð, heilbrigði, vellíðan og þarfir íbúanna voru í brennidepli. Félagsvísarnir áttu að nýtast sem tæki til að greina hópa í vanda, þar sem samfélagslegar aðgerðir og þjónusta skiluðu ekki tilætluðum árangri, auk þess að auðvelda stjórnvöldum og almenningi að fylgjast með þróun og breytingum í samfélaginu. Vísarnir áttu jafnframt að styðja við stefnumótun stjórnvalda.

Á grundvelli samnings sem félagsmálaráðuneytið gerði við Hagstofu Íslands var fyrsta útgáfa félagsvísa gefin út árið 2012. Í fyrstu útgáfunni var 55 félagsvísum skipt í flokkana lýðfræði, jöfnuð, sjálfbærni, heilsu og samheldni. Ári síðar hafði vísunum fjölgað um einn en fjöldi og heiti flokkanna voru óbreytt. Árið 2014 hafði vísunum fjölgað í 67 og voru þeir flokkaðir í lýðfræði og virkni, lífskjör og velferð, heilsu og samheldni. Árið 2015 var vísunum fækkað í 45 en sömu flokkar notaðir. Árið 2016 hafði þeim fjölgað í 49 vísa og flokknum samheldni skipt út fyrir flokkinn börn. Árið 2017 voru vísarnir aftur orðnir 45 og þeim skipt í flokkana lýðfræði, menntun, atvinnu, lífskjör og velferð, heilsu og börn.

Í byrjun árs 2019 voru félagsvísar endurskoðaðir til að taka betur mið af þróun sams konar vísa hjá öðrum hagstofum og alþjóðastofnunum. Niðurstöðurnar voru kynntar í greinagerð. Þar var mótaður kenningarlegur rammi félagslegrar velferðar sem var ætlað að vera í senn réttmætur, hnitmiðaður og tæmandi. Skilgreind var 41 tölfræðileg mælistika sem kallast félagsvísar. Hver félagsvísir er mæling á ákveðinni vídd félagslegrar velferðar, en víddirnar eru ellefu talsins.