Fjárhagur / Eignir


Stutt lýsing

Meðaleignir fjölskyldu í tiltekinni eignatíund. Hér er miðað við allar eignir fjölskyldu, þ.e. fasteignir, peningalegar eignir, aðrar eignir auk ökutækja á verðlagi ársins 2021.


Nánari skýring

Niðurstöður byggja á skattframtölum.

Fasteignir eru samtala allra fasteigna fjölskyldu, bæði innlendra og erlendra. Verðmæti fasteigna er miðað við fasteignamat. Peningalegar eignir eru innlán, verðbréf og aðrar peningalegar eignir. Innlán eru bankainnistæður í innlendum og erlendum bönkum, þ.m.t. innistæður barna. Verðbréf eru hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum (nafnverð), eignarskattsfrjáls verðbréf, stofnsjóðseign og önnur verðbréf og kröfur. Aðrar eignir eru húsnæðissparnaður, skyldusparnaður, hrein eign samkvæmt efnahagsreikningi og aðrar óskilgreindar eignir.

Niðurstöður um eignastöðu byggja á fjölskyldueiningu sem er mynduð af samsköttuðum einstaklingum og börnum undir 16 ára aldri skráð á þeirra lögheimili. Fjölskyldugerðin getur því vikið verulega frá fjölskyldugerð í þjóðskrá, enda þurfa hjón ekki að vera samsköttuð. Vakin er athygli á því að ungir framteljendur eru skráðir sem einstaklingar frá sextán ára aldri og þurfa að telja fram sem einstaklingar þó þeir búi enn í foreldrahúsum. Þessu þarf að taka mið að við túlkun niðurstaðanna, þar sem margir í neðstu eignatíundum geta tilheyrt ungum framteljendum.

Núvirðing er gerð í samræmi við árlegt meðaltal vísitölu neysluverðs, sem finna má í töflunni hér. Dæmi um núvirðingu er að breyta upphæð frá 2020 í samræmi við verðlag ársins 2021 með því að nota eftirfarandi formúlu: Vísitala neysluverðs 2021 / (Vísitala neysluverðs 2020 * upphæð).

Niðurstöðunum er skipt eftir eignatíundum. Tíundarmörk sýna dreifingu eigna sem er raðað í tíundir (e. deciles). Reglan er sú að 10% þeirra sem eiga minnstar eignir eru í neðstu tíundinni og 10% þeirra sem eiga mestar eignir tilheyra efstu tíundinni. Meðaltal eigna eftir eignatíundum er svo fundið með því að fjárhæðir sem liggja innan hverrar tíundar eru lagðar saman í samtölu tíundarhluta og þeirri tölu er deilt með fjölda fjölskyldna innan hverrar tíundar. Til dæmis: Eignir allra í lægstu eignatíund / Fjölda fjölskyldna í lægstu eignatíund.


Eining

Meðaltal heildareigna í tiltekinni eignatíund í krónum.


Nánari upplýsingar

Hér eru aðeins birtar lykiltölur um eignir.

Nánari upplýsingar eru í eftirfarandi töflum á aðalvef Hagstofu Íslands. Tölurnar í töflunum eru á verðlagi hvers árs fyrir sig.

Eignir

Lýsigögn með nánari upplýsingum má finna hér.